Orkan verði öll nýtt í Þingeyjarsýslum

Ágætu þingmenn Vinstri Grænna

 

Mig langar að skrifa ykkur nokkrar línur hér varðandi Norðurþing þar sem að ég er búsettur ásamt fjölskyldu minni

.

Áki Hauksson heiti ég og bý á Húsavík, hér hafa rætur mínar verið frá því 1965 eða rétt tæp 46 ár. Hér hefur mér liði afskaplega vel og vill helst hvergi annarstaðar vera. Hér býr gott fólk sem hefur haft það markmið að byggja upp gott og öruggt samfélag í gegnum árin og áratugina hvort heldur það snýr að einkageiranum eða opinberri þjónustu. Þessi tveir þættir eru órjúfanlegir og vinna það mikið saman að hvorugur getur án hins verið. Til að hafa örugga og góða opinbera þjónustu verður að vera gott og öruggt atvinnulíf. Við hér í Norðurþingi höfum margt reynt í atvinnumálum og vill ég nefna hér nokkur dæmi svo sem niðursuðuverksmiðja, parketframleiðsla, víngerð, rækjuverksmiðja, pokaframleiðslu, saumastofu, hóstasaft úr fjallagrösum, sultuverksmiðju og margt fleira. Flest af þessu hefur því miður ekki gengið upp og má segja að parketframleiðslan hafi dregið Kaupfélag Þingeyinga með sér í fallinu sem var mikil blóðtaka fyrir okkur.

 

Við lifum mestu á fiskveiðum og tengdum greinum, einnig er þjónusta og ferðaiðnaður okkur mjög mikilvægur. En betur má ef duga skal því að á síðustu 10 árum hefur íbúum á svæðinu frá Húsavík til Raufarhafnar, sem nú heitir Norðurþing, fækkað um 15%. Mest hefur fækkunin verið í aldurshópnum 40 ára og yngri, en í þeim aldursflokki hefur íbúum fækkað um 25%. Þessar staðreyndir eru grafalvarlegar fyrir okkar samfélag. Mestar áhyggjur hef ég á flótta yngra fólksins sem virðist ekki finna fótfestu hér í Norðurþingi.

 

Fyrir Þingkosningar 2007 skrifar Steingrímur J Sigfússon í Skarpi staðarblað Þingeyjarsýslna um „eitthvað annað“ en orkufrekan iðnað á Húsavík og segir meðal annars.

 Eitthvað annað eru þá t.d. störf í opinberri þjónustu og allur fyrirsjáanlegur og mögulegur vöxtur þar: -Heilbrigðisstofnun Þingeyinga -Framhaldsskólinn á Húsavík -Sýslumaður og lögregla -Þekkingarseturs Þingeyinga -Náttúrustofa Norðausturlands -Háskólasetur H.Í. á Húsavík -leik- tónlistar- og grunnskólar -félagsþjónusta -áhaldahús -bæjarskrifstofur -veitustarfsemi sveitarfélagsins, raforkuframleiðsla úr afgangsgufu frá hitaveitu og tengd sorpbrennsla eru allt góð dæmi um umsvif sem eru "eitthvað annað" *"Eitthvað annað" er þjónusta á vegum einkaaðila: -bankar -verslanir -iðn- og handverksþjónusta -byggingarstarfsemi, viðhald, viðgerðir, verkstæðisrekstur.

 

Eitthvað annað er ferðaþjónusta, mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs sl. 30 ár: -hvalaskoðun -hvalamiðstöð og söfn -veitinga- og gististaðir -bílaleiga, rútuútgerð, bílstjórar, leiðsögumenn, landverðir og hvers kyns afþreying *Garðarsstofa á Húsavík er "eitthvað annað" Eitthvað annað eru matvælavinnslu- og iðnfyrirtækin í gömlu mjólkurstöðinni. *"Eitthvað annað" er Norðlenska saltfiskverkun, hausaþurrkun og önnur umsvif GPG, landvinnsla Vísis, útgerð báta og skipa......lífrænar gulrætur í Öxarfirði og kryddjurtir og te í Aðaldal eru "eitthvað annað" .....

 

Því miður þrátt fyrir góðan vilja Steingríms J Sigfússonar þá er opinber þjónusta ekki það sem við getum byggt okkar framtíð eingöngu á. Mikill niðurskurður á opinberri þjónustu er staðreynd í dag eftir bankahrunið. Ekki er hægt að skella skuldinni á atvinnuuppbyggingu hvað svo sem ykkur finnst um álver eða annan orkufrekan iðnað. Grafalvarlegir hlutir gerðust innan bankakerfisins, bankarnir rændir innan frá og kvittað svo fyrir öllu saman með fölsuðum ársreikningum.   

Útflutningur á áli hefur haldið uppi viðskiptajöfnuði og gjaldeyri til landsins undanfarið ásamt fiskafurðum og öðrum útflutningi. Mikil bjartsýni og sóknarhugur kom yfir íbúa hér í Þingeyjarsýslum þegar í ljós kom sú mikla orka sem býr í iðrum jarðar á Þeistareykjum og víðar. Þáverandi meirihluti bæjarstjórnar Húsavíkur H-Listinn sem ykkar fólk sat í hóf þegar að leita að áhugasömum orkukaupanda. Sú leit skilaði þeirri niðurstöðu 18-05-2006 að  Alcoa, ríkisstjórnin og Húsavíkurbær (H-Listinn) skrifa undir viljayfirlýsingu um áframhaldandi rannsóknir á fjárhagslegri hagkvæmni nýs álvers á Norðurlandi með 250.000 tonna framleiðslugetu á ári.

 

Það er alveg ljóst  í huga okkar íbúa hér í Þingeyjarsýslum að orkan verði öll nýtt heima í héraði (Þingeyjarsýlum) enginn afsláttur verður gefinn af því. Alvarleg skilaboð berast nú frá Landsvirkjun sem kúvent hefur öllum málum okkar hér og virðist hunsa allar okkar kröfur, vilja sem og Naustnefndina sem sértaklega var stofnuð til að leita að áhugasömum fjárfestum um orkuna okkar hér.  Augljóst er að þessi stefna Landsvirkjunar kristallar stefnu ykkar í ríkisstjórn. Allt bendir til þess að einungis brot af þeirri miklu orku sem hér er verði nýtt í Þingeyjarsýslum. Þessi nýja stefna er okkur mikið áfall og áhyggjuefni eftir þá miklu vinnu sem heimamenn hafa sett í verkefnið „Þeistareyki“ og víðar.

 

Nú finnst flest öllum hér allt vera í lausu lofti og ekki síst ykkar stuðningsfólki. Verði haldið áfram þeim áætlunum að skera enn meira niður í opinberri þjónustu leggst annað atvinnulíf af.  Nú er boltinn hjá ykkur ágætu þingmenn og framtíð okkar svæðis í ykkar höndum, eitthvað sem ég hélt að ég ætti ekki eftir að lifa, ég vill og mikill meirihluti í Þingeyjarsýslum fá að ráða miklu um okkar búsetu og skilyrði fyrir búsetu það er ykkar hlutverk sem þingmanna að svo geti orðið. Við ætlumst til þess að þið veitið okkur stuðning í okkar málum, hér þurfum við sterkan og öflugan grunn til að byggja á til að snú byggðarþróun við hjá okkur. Pólitíkin á að liðka fyrir atvinnumálun en ekki að hindra eða tefja fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband