Hvernig viljum við sveitarfélagið Norðurþing.

 

 

Nú fer í hönd enn einar sveitastjórnarkosningarnar, sennilega þær mikilvægustu í langan tíma.

Nú þarf áræðið, traust og gott fólk í forystusveit sveitarfélagsins. Velta verður hverri krónu fyrir sér og þær krónur sem er afgangs verður að nýta á sem besta hátt í þágu allra íbúa sveitarfélagsins.

Höfuð áhersla verður að leggja á þau atriði sem auka tekjur fyrir sveitarfélagið.

Það er gert fyrst og fremst með því að laða að ný fyrirtæki stór sem smá og bjóða alla þá aðila velkomna sem tilbúnir eru að fjárfesta og skapa atvinnu hér í sveitarfélaginu sem og að hlúa að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru.

Tryggja verður að sú orka sem við eigum hér í Þingeyjarsýslum verði nýtt heima í héraði, það er afar mikilvægt vopn í þeirri  viðleitni okkar til að laða fleiri fyrirtæki í sveitarfélagið,  í raun erum við mörgum skrefinu framar en mörg önnur sveitarfélög hvað það varðar og mikilvægt að nýta þetta vopn okkar á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Mikilvægt er að fylgjast vel með og vera vakandi yfir öllum tækifærum,  eiga frumkvæði  til viðræna og samninga við þau fyrirtæki sem leita sér samastað fyrir sína starfsemi.

Standa þétt við bakið á frumkvöðlum og aðstoða á allan hátt í þeirri vona að skapist tekjur og atvinna. Hvert einasta starf skiptir máli. 

.

Tryggja verður orkunýtingu í Þingeyjarsýslum

Hvað varðar orkuna og nýtinguna á henni er mikilvægt að hafa í huga,  þó svo að hún sé mikil í iðrum jarðar hjá okkur þá er langt í land að hún verði að raforku.

Það kostar gríðar mikla peninga að reisa virkjun til að beisla gufuna til rafmagnsframleiðslu. Slík virkjun kostar alltaf einhverja tugi milljarða jafnvel á annað hundrað milljarða.

Til þess að fjármagna slíka virkjun verður að fá stórann orkukaupanda með langtíma samning um raforkuna til einhverja tugi ára.

Þannig kaupandi liggur ekki á lausu nema þá helst álframleiðendur. Fari svo að ekki verði samið við stórann orkukaupanda er afar mikilvægt að tryggja með samningi  við ríkið að Þingeyjarsýslurnar eiga rétt á orkunýtingunni og njóti forgagns að ákveðnu hlutfalli þeirrar orku sem hægt er að virkja. Marka verður skýra stefnu í orkumálum og orkunýtingu á næstu misserum með beinum viðræðum við stjórnvöld. Það er afar mikilvægt að binda alla hnúta í þessum efnum og vinna hratt.

Núverandi viljayfirlýsing við stjórnvöld rennur út 1 Mars 2011.

 

Vakandi yfir öllum tækifærum

Mikilvægt er að setja á laggirnar nefnd sem gegnir því mikilvæga hlutverki að vera vakandi yfir öllum nýjum atvinnutækifærum sem koma inn á borð sveitarstjóra eða stjórnsýslunnar.

Fylgja öllum nýjum tækifærum eftir í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga sem vinnur þá málið áfram. Engum hugmyndum verður hent út af borðinu án þess að þessi nefnd hefur fjallað um þær.

 

Grunnþjónustan verður að vera í lagi

Það er ekki nóg að ná „bara“ til sín fyrirtækjunum ef grunnþjónusta sveitarfélagsins er ekki í lagi. Tryggja verður að samfélagið sé í stakk búið til að veita góða þjónustu á öllum sviðum samfélagsins fyrir íbúa sveitarfélagsins og ekki síst þeim sem vilja flytja í sveitarfélagið með starfsemi sína eða fjölskyldur. Við erum í samkeppni við öll hin sveitarfélögin í landinu um fólk og fyrirtæki. Þetta eru tveir megin þættir sem geta ekki verið án hvors annars þ.e.a.s fyrirtækin sem koma með tekjurnar til þess að grunnþjónustan sé í lagi svo að fólkinu líði sem best,  órjúfanlegir þættir í hverju sveitarfélagi.

Mikilvægt atriði í þessu sambandi er að þær eignir sem sveitarfélagið getur ekki nýtt en aðrir sjá  tækifæri í þeim verði auglýstar og seldar hæstbjóðanda til að hámarka verðmæti þeirra og þar með að styrkja grunnþjónustuna í samfélaginu.

 

Sameina sveitarfélagið, félagsstarf unglinga og efla Framhaldsskólann

Afar mikilvægt er að hlúa að jaðarbyggðum sveitarfélagsins og efla þær á allan máta. Mikið réttlætis mál í sveitarfélaginu er að allir íbúar þess geti stundað framhaldsnám í framhaldsskólanum á Húsavík annað hvort í gegnum  fjarkennslu eða þá að geta staðsett sig á Húsavík til að stunda sitt nám frá dreifðari byggðum.

Mikilvægt er að skoða alla möguleika  sem bjóða upp á slíkt í samstarfi við ríkið.

Þetta er afar mikilvægur þáttur í því að efla tengsl milli fólks í þéttbýli  og hinna dreifðu byggða sveitarfélagsins og skapa þannig grunninn fyrir vinskap og eðlilegum samskiptum íbúa sveitarfélagsins.

Vera einnig velvakandi yfir öllum öðrum tækifærum sem eru mikilvæg í að halda tengslum við alla íbúa sveitarfélagsins. Þannig getum við þjappað byggðunum betur saman.   

Í framhaldi af þessu verður einnig að leita leiða til að skapa þann grunn að félagslíf ungs fólks í sveitarfélaginu verði til fyrirmyndar og unglingar geti fundið sér samastað nokkrum sinnum í viku til að hittast og halda tengslin.

Jafnvel að bjóða upp á og skiptast á sætaferðum innan sveitarfélagsins  t.d. á tilteknum Laugardögum og má í því sambandi nefna að það mætti horfa til þess að opna  bíó á Húsavík aftur ef áhugi er fyrir því og þær sætaferðir til Húsavíkur verði í tengslum við sýningar sem og aðra góða afþreyingu.

Nýta Mærudagana fyrir alla íbúa sveitarfélagsins, fá jaðarbyggðirnar með.

Efla verður alla þessa þætti sem sameinar sveitarfélagið í eitt og stuðla að því að mynda eina heild.

 

Ferðaþjónustan.

Ferðaþjónusta er stór þáttur hér hjá okkur og skapar góðar tekjur fyrir sveitarfélagið. Þennan þátt verður að efla enn meira og leita leiða til að nýta þau mannvirki sem þegar standa auð og lítil not eru fyrir í dag. Bökugarðurinn á Húsavík er dæmi um slíkt sem þarf að fara að skila tekjum, leita verður allra leiða til að nýta þetta mikilvæga mannvirki.

Einn megin þáttur í því er að þrýsta enn frekar á stjórnvöld við að klára Dettifossveg, það er grunnurinn fyrir því að laða hingað skemmtiferðaskip.

Við búum hér í einni fallegustu náttúruperlu landsins, erum með t.d. Dettifoss, Ásbyrgi, Hljóðakletta, Hólmatungur,  og hvalaskoðunarmiðin, áhugaverð söfn eins og skjálftasafnið á Kópaskeri,  sem kynnir jarðfræði svæðisins mjög vel, Safnahúsið, Hvalasafnið og Reðursafnið.

Hugmyndin að heimskautagerðinu á Raufarhöfn er hreint frábær og miklar pælingar þar að baki hvað varðar tímatal árstíðanna byggt á gangi sólar.

Við eigum þar af leiðandi að vera í kjöraðstöðu til að fá ferðamanninn beint hingað til okkar til sjóleiðina og Bökugarðurinn er lykilatriði í því.   

  

Áki Hauksson

Skipar 3. sætið á lista þinglistans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband