5.5.2010 | 22:00
Hagsmunir Norðurþings er forgangsmál Þinglistans
Sameiginlegt umhverfismat Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Stóra verkefnið okkar á Bakka hefur ekki gengið eins og best verður á kosið og lítið ágerst í þeim málum frá því að skrifað var undir viljayfirlýsinguna 2006.Eitt stærsta áfallið var þegar að Þórunn Sveinbjarnardóttir þáverandi umhverfisráðherra Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar setti verkefnið á Bakka í sameiginlegt umhverfismat sem umboðsmaður Alþingis úrskurðaði síðar að væri stjórnsýslulagabrot. Á frægum fundi hér á Húsavík sagði Þórunn að verkefnið tefðist ekki um einn dag út af þessari ákvörðun sinni. Síðan eru liðin tæp tvö ár og lítið gerst síðan. Tjónið vegna þessarar ákvörðunar er mikið fyrir okkur hér í Norðurþingi. Það er vilji Þinglistans að leita réttar okkar og gagnvart ráðherra og umhverfisráðuneytinu og krefjast bóta vegna tafa sem hafa orðið á verkefninu.Það alvarlegasta í þessu Bakkaverkefni hjá okkur er lítill áhugi þingmanna og ríkisstjórnar. Nú liggur þetta Umhverfismat fyrir og ekkert nýtt hefur komið fram í kjölfarið, engar ákvarðanir eða ný tromp á hendi. Ýmis teikn eru á lofti um að dregið hafi úr áhuga fyrir verkefninu því er afar brýnt að bregðast rétt við. Við höfum ekki tíma né fjármagn til að grafa hausnum í sandinn mikið lengur og bíða eftir því að einhver annar geri eitthvað.Staðreyndin er sú að núverandi viljayfirlýsing við ríkið rennur út 1. maí 2011 og hvað tekur við eftir það veit enginn. Almenningur hefur frest til 14. júní 2010 til að gera athugasemdir við sameiginlega umhverfismatið. Eftir þann frest á eftir að yfirfara og vinna úr kærum sem berast vegna þessa sameiginlega mats. Viljayfirlýsingin kveður á um að bora verður þrjár rannsóknarborholur á Þeystareykjum ásamt mörgum öðrum atriðum sem verður að klára svo að viljayfirlýsing haldi. Ég get ekki séð að það gangi eftir í sumar ef kærur vegna þessa mats verða margar og tafsamar í vinnslu.
Samband við Þingmenn.
Margir vilja halda því fram að það muni torvelda Þinglistanum setu í sveitarstjórn Norðurþings að hafa ekki sambönd inn á þing í gegnum þingmenn Norðausturkjördæmisins vegna þess að Þinglistinn sé óháður allri flokkapólitík. Með því að vera óháð framboð með áhrif í sveitarstjórn Norðurþings getur Þinglistinn beitt sér að meira afli inn í landspólitíkina, það er alveg klárt að þingmenn hvar svo sem þeir sitja koma ekki til með að hafna því að vinna með Þinglistanum að góðum málum fyrir sveitarfélagið. Þinglistinn er alveg óhræddur að vinna með hvaða þingmanni/mönnum úr hvað flokki/flokkum sem er til að ná því besta fram fyrir sveitarfélagið. Ég tel að með algjörlega óháðu framboði náist betur til allar þingmanna og inn í hvaða ríkisstjórn sem er. Þinglistinn hefur engra annarra hagsmuna að gæta en hagsmuna sveitarfélagsins og íbúa þess.Við látum ekki flokkapólitík eða einstaka hagsmuni þingmanna ganga fyrir hagsmuni sveitarfélagsins.Sveitarstjórnarpólitík og landspólitík eru tveir ólíkir hlutir. Sveitarstjórnarpólitík vinnur eftir þeim lögum og reglum sem landspólitíkin setur. Sveitarstjórnir á hverjum stað er svo frjálst að vinna innan þessara laga óháð flokkspólitík. Ég tel að þessi sambinding á milli sveitarstjórnarpólitíkur og landspólitíkur þessa svokölluðu fjórflokka sé til þess fallin að þvælast fyrir mörgum stórum málum sem verið er að vinna í innan sveitarfélagsins og móðurflokkarnir stjórni of miklu í gegnum sína flokka í sveitarstjórn.Hvaða sambönd er verið að tala um?
Hér eru tvö dæmi um sambönd sem hefðu átt að hjálpa okkur í þessu stóra máli okkar á Bakka. Samband Sjálfstæðisflokks í Norðurþingi og aftur Sjálfstæðisflokks á Alþingi en sá flokkur sat í ríkisstjórn þegar að skrifað var undir viljayfirlýsinguna 2006. Fyrst með Framsóknarflokki og svo aftur með Samfylkingu eftir Alþingiskosningarnar 2007. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar setti verkefnið okkar í sameiginlegt umhverfismat með samþykki beggja stjórnarflokkanna.Sjálfstæðisflokkurinn hér hafði öll tök á því að beita sér af fullu afli inn í móðurflokki sínum til að breyta þessari ákvörðun sem og að þrýsta á önnur brýn mál sem snéri að þessu verkefni okkar en taldi betra að eyðileggja ekki þetta samband á milli flokkana og einstaklingana sem þar sitja, rugga ekki bátum. Samband Samfylkingarinnar í Norðurþingi við móðurflokk sinn á Alþingi hefði einnig átt að hjálpa okkur í þessu stóra verkefni okkar þar sem að Samfylkingin barðist mikið fyrir því í aðdraganda kosninga að þetta verkefni kæmist á. Hvers vegna gat Samfylkingin hér ekki komið í veg fyrir það í gegnum móðurflokk sinn að þessi ólöglega ákvörðun Þórunnar næði fram að ganga? Mátti ekki eyðileggja þetta samband á milli flokkana og einstaklingana sem þar sitja? Hverjir eru að stjórna hverjum? Í þessu sambandi má nefna að Svandís Svavarsdóttir núverandi umhverfisráðherra var svínbeygð af sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi og varð að draga til baka sitt ólöglega sameiginlega umhverfismat sem hún ætlaði að setja Helguvíkurverkefnið í.Þar ofbauð sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi sem og þingmönnum úr öllum flokkum nema Vinstri Grænum, yfirgangur umhverfisráðherrans og beittu sér að alefli í því að leysa málið með miklum þrýstingi sveitarstjórnarmanna. Ekki vegna þess að þeir sem sitja í sveitarstjórnum á Suðurnesjum eru Framsóknarfólk, Sjálfstæðisfólk, eða Samfylkingarfólk, þessi mikli þrýstingur kom vegna þess að of mikið var undir til að bregðast ekki strax við slíkri ákvörðun sem Svandís tók og gerði á sömu forsendum og Þórunn tók í okkar tilviki hér.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.